Fréttir úr engum stað

Framtíðarskáldsögur Willian Morris, Edward Bellamy og Andra Snæs Magnasonar

Fréttir úr engum stað  er bók eftir William Morris sem kom út árið 1890.  Bókin heitir á frummálinu News from Nowhere og er staðleysubókmenntir (útópíusaga) framtíðarsaga sem gerist í samfélagi þar sem er enginn einkaeignaréttur, engar stórar borgir, engin stjórnvöld, ekkert peningakerfi, engir skilnaðir, engir dómstólar, engin fangelsi og enginn stéttamismunur. Söguhetjan er maðurinn Willian Guest sem sofnar eftir að hafa verið á fundi og vaknar upp í þessu framandlega samfélagi.  Í sögunni kemur Morris inn á vinnuna og hvata til vinnu. Nýlega var í BBC þáttur um borgaralaun og þar var minnst á hvernig hugmyndir og lífssýn William Morris um umbun fyrir vinnu og hvernig við skilgreinum vinnu rímaði við samfélag nútímans. Sagan Fréttir úr engum stað er  andsvar við framtíðarskáldsögunni Horft um öxl 2000-1887   eftir Edward Bellamy sem kom út tveimum árum fyrr eða árið 1888 en sú saga upphóf jákvæð áhrif tæknibreytinga á samfélagið og sá sæluríki framtíðarinnar  sem ríkisrekinn sósíalisma. William Morris talaði hins vegar fyrir frjálslyndri jafnaðarstefnu (Libertarian socialism ). Morris upphefur sveitasæluna en Bellamy borgirnar, Morris þráir endurhvarf til náttúru þar sem vélar eru engöngu notaðar til að létta byrði mannanna en Bellamy  fagnaði Iðnbyltingunni sá vélvæðingu sem lið í að koma á fyrirmyndarríki.Í draumsögu  Morris er engin skólaskylda í framtíðarríkinu og þar er áhersla á útikennslu, að læra af náttúrunni og út í náttúrunni og sem minnst inn í húsum.  Það á að  ríkja jafnrétti kynja en konur eru þó í heimilisstörfum og verkaskipting ríkir.

Eldspýtnastúlknaverkfallið í London 1888. Eitt fyrsta verkalýðsfélagið var "Union of Women Match Makers". Annie Besant var foringi verkfallsmanna

Horft um öxl

Sagan Horft um öxl 2000-1887 segir frá ungum Bandaríkjamanni Julian West sem fellur í dásvefn og vaknar 113 árum seinna á sama stað í Boston en heimurinn er breyttur. Hann er staddur í sæluríki eftir tæknibyltingu og allir hafa það gott og njóta menntunar og jafnréttis, öldungaráð ræður í störf og  fólk vinnur eins og það vill fyrir utan að það er þegnskylduvinna í þrjú ár þar sem  vinna þarf óvinsælustu störfin. Saga Bellamy varð metsölubók á sínum tíma en hún spratt upp úr aðstæðum átaka verkafólks og kapítalista, verkafólk að stofna verkalýðshreyfingar og fara í verkföll og kapítalismi að þróast í einokun, fákeppni og auðhringi. Árið er 2000 og Bandaríkin hafa breyst í sæluríki sósíalismans. Söguhetjan finnur leiðsögumann Doktor Leete sem sýnir honum öll undrin sem hafa gerst, hvernig vinnuvikan hefur styst og öll aðföng berast til fólks leiftursnöggt. Allir fara á eftirlaun um 45 ára aldur og geta borðað í sameiginlegum eldhúsum. Framleiðslutækin eru í sameign og auðlegð samfélagsins er jafnað milli allra. Allir borgarar fá jafnmikið búsílag eins konar inneign á debetkort.

Blóðbaðið á Haymarket (wikipedia commons)

Blóðbaðið á Haymarket í Chicago 1886

Samtíminn og framtíðin

Framtíðin er núna og framtíðin sem Bellamy staðsetti sína sögu í er fortíð núna og Bandaríkin eru ekki sæluríki ríkisrekins sósíalisma. Þvert á móti eru það ríki þar sem eðlilegt þykir að ríkisfé sé notað  bjarga bönkum með stórum fúlgum og fangelsi eru sums staðar einkarekin og það er  hlutskipti margra bandaríkjamanna að vera fátækur og/eða vera fangi. Margt bendir til að tæknibreytingar undanfarinna ára séu að umbreyta samfélaginu þannig að störf sem miðstéttin hefur unnið þurrkist út hraðar en önnur störf og það hefur í för með sér meiri mismunun og fleiri í sárri fátækt og vaxandi hóp sem kallaður hefur verið precariat. Á þeim tíma sem Bellamy og Morris sömdu sína óði til framtíðarinnar þá var  önnur iðnbyltingin, tæknibyltingin (Second Industrial Revolution – Wikipedia) að ganga yfir. Tæknibreytingar margháttaðar og miklar breytingar verða varðandi samskiptatækni, rafvæðingu, járnbrautarlestir og lagnakerfi borgarsamfélags.  Hér á síðunni eru tvær teiknaðar myndir af samtímaatburðum, af verkfalli eldspýtnagerðarstúlkna í London 1888.(Fyrstikkpikenes streik i London i 1888 – Wikipedia) og Blóðbaðinu á Haymarket  árið 1886. Hvoru tveggja voru þetta atburðir sem mörkuðu tímamót, tímamót vaxandi verkalýðshreyfingar og baráttu gegn heilsuspillandi vinnuumhverfi og líka róstur og uppþot sem fóru úr verkalýðsbaráttu yfir í pólitískt ofstæki og ofbeldi.

Það var um þetta leyti sem  Einar Benediktsson  var í námi í Kaupmannahöfn en hann varð seinna fossakaupmaður og stórkapítalisti fyrir Fossafélagið Títan. Þessi erindi  úr Tínarsmiðjum Einars Benediktssonar endurspegla tilbeiðslu hans og lotningu fyrir tækninni:

Eldar brenna yfir Tíni
eins og sterkir vitar skíni.
Myrkrið ljósin magnar óðum.
Málmlog gjósa af hverri stó.
Skolgrátt fljótið fram í sjó
flýtur allt í rauðum glóðum,
eins og járn úr hundrað hlóðum
herðir sig í straumsins þró.

Greipar stáls með eimsins orku
elta, hnoða málmsins storku.
Falla í laðir logaiður
Létt sem barnshönd móti vax.
Lyftast hamrar heljataks,
hrynja járnbjörg sundruð niður,
Verða eins og eldhrauns skriður
undir sleggju, töng og sax.

Rafaeldur, eimur, vöðvar
alt knýr rauðabrunans stöðvar.
Einnar dvel ég undir þaki.
Allra krafta og handa er neytt.
Flóði stáls í strauma er veitt,
steðjar gjúpna af véla braki.
Eldskjótt undir tröllsins taki
tímans aldaverki er breytt.

Blikkið í Hraundröngum

Þessi lotning Einars Benediktssonar yfir tækniundrunum sem birtust honum í málmbræðslum og hergagnaframleiðslu Bretlands má  hamra saman við  blikkið við Hraundranga sem birtist í framtíðarskáldsögu íslenska rithöfundarins Andra Snæs Magnasonar  Lovestar frá árinu 2002. Skáldið sem orti ungur maður Bónusljóð um veðralausa veröld vörumerkjanna hefur núna síðustu ár þroskast í að vera varðmaður íslenskrar náttúru í heimi alþjóðavæðingar. En í sögunni Lovestar hefur alþjóðlegt fyrirtæki LoveStar flutt höfuðstöðvar sínar að Hrauni í Öxnadal og gert dauðann að söluvöru, reiknað út ástina og reynt að finna Guð. LoveStar er stærsta fyrirtæki í heimi  og er gervihnöttur sem blikkar við Hraundranga. Búið er að leggja niður Alþingi og landinu er stjórnað bak við sítengdar skoðanakannanir.  

Tenglar