Barnaníðingabandalagið


Umræðan um hvort Jón Baldvin hefði átt  að fá að vera  stundakennari við Háskóla Íslands  vegna meintrar vafasamrar fortíðar heldur áfram út frá ýmsum sjónarmiðum, núna er umræða um umræðu. Það er áhugavert að  skoða að í facebook, blogg og  netfjölmiðlapistla  umræðu  tjáir fólk sig með eða á móti einhverju viðhorfi með lækum á facebook og  og með því að dreifa ábendingum um greinar/facebookarstatusa. Umræðan um umræðu  fjallar um hvað fólk er að miðla á milli sín þar. Þetta er áhugavert út frá pælingum um félagslega skiptimynt (e. social currency) og áhugavert að fylgjast með hvernig eða hvort bandalög og fylkingar fólks eru núna mynduð gegnum  það sem fólk dreifir á facebook (í þessu tilviki brot úr persónulegum bréfum og statusar og comment um meint vanhæfi og ábendingar um efni).

Ingvi Freyr  Vilhjálmsson skrifar blogg sem er greining hans á málflutningi þeirra sem vilja Jón Baldvin ekki sem stundakennara. (sjá greinina hérna Ingi Freyr Vilhjálmsson Neikvæður femínismi DV.is ). Greining hans byggir að mestu á einum facebook status hjá Hildi Lillendahl sem var lækatalning hjá einum gagnrýnenda facebook orðræðu hennar en hún lýsir þar hryggð sinni yfir að hann hafi uppskorið yfir hundrað læk  og mörg hver frá málsmetandi skáldum og þjóðfélagsrýnum fyrir að segja facebook umræðu hennar gefa til kynna  að hún og aðrir sem slíku dreifðu væru haldin bæði kvalalosta og gægjufíkn og  yfirdrifnum hefndarþorsta.

Ég mun vonandi  seinna að halda áfram með pælingu um það sem deilt er á félagsmiðlum sem félagslega skiptimynt og tæki til að búa til fylkingar. Fer fólk  í “Barnaníðingabandalagið” ef það lækar einhverja netgrein, blogg eða facebook status?

Hér er  komment sem ég skrifaði á blogg Inga Freys sem ég set hér inn svo það glatist ekki:

Tvær konur skrifa frekar kurteislegt og opið bréf til háskólayfirvalda þar sem þær mótmæla ráðningu eins stundakennara vegna vafasamrar fortíðar og bréfið endar með rosalegri hótun “við munum ekki sitja þegjandi”. Ég sé ekkert að þessu bréfi og að því að kalla eftir því frá háskólanum hvort viðeigandi sé að umræddur aðili sé stundakennari þar. Ég sé hins vegar sitthvað á því hvernig háskólinn tók á málinu. Ég hefði óskað að háskólayfirvöld hefðu svarað þessu bréfi með öðru jafnkurteislegu þar sem þau segðu að vissulega væri gott ef allir sem þar stíga í kennarasæti væru vammlausir menn með hreint hjartalag sem aldrei hefðu sagt eða gert neitt í fortíð sinni sem sært hefði eða hneykslað neinn annan.

Hins vegar væri það svo að ekki væri annað bakgrunnstékk gert á háskólakennurum en þeir hefðu viðeigandi hæfni ( mælda í menntun og vísindastörfum) og reynslu mælda í því sem fólk hefði starfað að og háskólinn reyndi að tengja sig við samfélagið en ekki einangra sig frá því og ráðning umrædds stundarkennara væri vegna þess að hann kæmi með yfirsýn og sjónarhorn frá stjórnmálamanni sem sjálfur stóð í eldlínu á tímum mikilla umbrota. Einnig hefði ég vísað í þær siðareglur og vinnureglur sem háskólakennarar eiga að hlíta og bent á að  háskólinn kannaði ekki fortíð háslólakennara nema hvað varðar þá þætti sem þeir eru metnir eftir og virðing fyrir tjáningarfrelsi og þekkingu væri þar í hávegum höfð.

Ég sé ekkert athugavert við sem mesta umræðu um þetta mál og hvet femínista til að nota áfram þau beittu vopn sem hræða svo mjög að “sitja ekki þegjandi”. Það er ekkert að því að efla umræðu. Það er hins vegar svo að þær umræðuflóðgáttir sem hafa opnast með tilkomu ýmis konar netmiðlunar almennings geta breytt umræðu í kolmórautt flóð sem getur dregið einstaklinga með sér og drekkt þeim. Mannréttindi eru líka fyrir fólk sem liggur undir grun fyrir ósiðlegt og glæpsamlegt athæfi og reyndar líka fyrir harðsvíraða glæpamenn sem hafa afplánað. Það er ekki siðlegt að dreifa viðkvæmum einkabréfum, allra síst ef þau draga með inn í umræðuna fólk sem málið snýst ekki um og fela ekki í sér sönnun um eitt eða neitt saknæmt eða ósiðlegt athæfi.

Það er einnig álitamál sem mér finnst ákaflega brýnt að ræða hvort háskólar eigi að vera einhvers konar umönnunarstofnanir fyrir viðkvæmt fólk sem þolir ekki mikið hnjask og því sé nauðsynlegt að hlífa nemendum þar sérstaklega við venjulegu breysku fólki með fortíð. Ég satt að segja held að háskólinn yrði  litríkara samfélag með meiri jarðtengingu við lífið utan við ef þar kennir als konar fólk, jafnt guðlegar verur sem eru svo blásnar af manngæsku að þær snerta ekki jörðina þegar þær labba sem og breyskir menn og ribbaldar.

Það er eingöngu þetta tvennt sem stuðar mig í málflutningi femínista sem hafa tjáð sig undanfarna daga, það er of langt gengið á mannhelgi einstakra nafngreindra aðila sem taldir eru ekki þess verðir að hafa sömu lýðréttindi og við hin til að starfa og njóta friðhelgi og það er of mikil áhersla á að háskólanám eigi að skipuleggja fyrir viðkvæmar sálir. Að þessu sögðu þá er flott að sem mest umræða sé og sem litríkust af hálfu femínista

Það er svo, það vitum við sem höfum lengi verið í þeirri mannréttindabaráttu sem femínismi er að við náum engum árangri með því að vera stillt og þæg. Það er um að gera að nota umræðu sem verkfæri til að þoka málum áfram og sýna og kynna hve kynferðisofbeldi er algengt og inngróið í okkar samfélag og mælikvarði á árangur er t.d. ef það sem kallað var ókurteisi og dónaskapur fyrir áratugum er kallað áreitni og kynferðisofbeldi í dag. Eitt nýtt orð hef ég séð notað í þessari umræðu. Það er orðið “Barnaníðingabandalagið”. Ég veit að ég á ekki að brosa að þessu en orðið minnir mig svo mikið á skúrka minnar bernsku sem voru “Björnebanden” í Andrésblöðunum dönsku. Nú hafa tímarnir breyst og viðmiðin í umræðu þannig að nú verður sá sem tekur upp hanskann fyrir meinta beitendur kynferðisofbeldis að þeir verða að sverja af sér að þeir séu ekki í hinu mikla barnaníðingabandalagi.

Fyrri skrif mín um þetta mál:
Háskólar – Bólstraðar dyngjur fyrir innilokaða nemendur? | Salvör Kristjana

Comments are closed.