Hugmyndir Jeremy Rifkin um endalok vinnunnar

Ég var að horfa á þetta myndband frá 10.  alþjóðlegu ráðstefnu Fablab samfélagsins en slíkar ráðstefnur eða verkstæði eru haldnar árlega. Þetta eru ekki eingöngu tækniverkstæði og stafrænt föndur heldur svífur þar ákveðin hugmyndafræði yfir vötnum og þátttakendur eru að búa sig undir nýjan framleiðsluheim – heiminn eftir þriðju Iðnbyltinguna.

Snemma á myndbandinu kemur fram að einn af fyrirlesurum á Fablab ráðstefnunni  í ár var Jeremy Rifkin og þá rifjaðist upp fyrir mér að fyrir einum og hálfum áratug þá setti ég upp vef um upplýsingasamfélagið og tók þá saman pistil um hugmyndir Jeremy Rifkin um endalok vinnunnar. Svo vill til að þessi pistill er ennþá aðgengilegur á Netinu og lími ég hann hér :

Rifkin er framtíðarspámaður, hugsjónamaður og umhverfissinni. Hann hefur skrifað nokkrar bækur sem vakið hafa athygli, þar á meðal bók á móti nautakjötsframleiðslu árið 1992. Rifkin varar núna við fjöldaatvinnuleysi um allan heim í kjölfar tækni- og tölvubyltingar og rekur hvernig það geti leitt til efnahagshruns með skelfilegum afleiðingum.
Í bókinni “The End of Work” fjallar Ritkin um þriðju iðnbyltinguna og hvernig hún muni svipta burt lífsviðurværi og störfum frá meginþorra allra sem vinna í hinum iðnvædda heimi. Hann rekur áhrif tæknibreytinga í gegnum tíðina, hvernig þær hafa þurrkað út sum störf og búið til önnur. Hann tekur þar dæmi af því að þegar vélknúnar dráttarvélar juku afköst í sveitunum þá fóru landbúnaðarverkamenn til Detroit til að vinna þar í bifreiðaiðnaði. Þegar svo sjálfvirkni óx í þeim iðnaði fundu dætur starfsmanna í bílaverksmiðjum ný störf í þjónustu.

Hann telur að við séum á fyrstu stigum tæknibyltingar þar sem skiftin verða frá vinnuafli fjöldans yfir í afar sérhæft vinnuafl forréttindastéttar og sú þróun sé samfara aukinni sjálfvirkni í framleiðslu og þjónustu. Vélmenni, tölvusamskipti og annars konar tækni upplýsingaaldar komi í staðinn fyrir starfsfólk í öllum geirum atvinnulífsins. Verksmiðjustarfsmenn, ritarar, starfsfólk í afgreiðslu og símavörslu, bankagjaldkerar, bókasafnsfræðingar, heildsalar og millistjórnendur eru aðeins nokkrar af þeim fjölmörgu störfum sem nú eru í útrýmingarhættu.

Ritkin fjallar um hvernig vinnan breytist og hvernig verktakavinna færist í vöxt. Hann efast um að allir starfsmenn á bandarískum vinnumarkaði geti unnið sem verktakar sem þurfa sífellt að vera að leita eftir nýjum samningum fyrir skammtímaverkefni og þurfi algerlega að skipta um vinnuaðferðir og endurhæfa sig á nokkurra ára fresti.

Rifkin bendir á að tæknibyltingin sem nú stendur yfir sé frábrugðin á þann hátt að hún búi til miklu færri störf heldur en lögð séu niður. Í hinum nýju störfum sé auk þess sóst eftir eiginleikum eins og rökhugsun og færni í tungumálum þannig að störfin sem skapist séu miðuð fyrir lítinn geira “kunnáttustarfsmanna”.

Rifkin hafnar þeirri goðsögn að með því að öðlast færni til starfa í hugvits- og kunnáttugeiranum, læra forritun og flóknar tæknigreinar, með því að endurmennta sig og endurhæfa sem fyrst þá geti starfsmenn í deyjandi starfsgreinum tryggt sér bólstrað sæti í hátæknihraðlestinni. Í fyrsta lagi hafi starfsmennirnir engar forsendur til að ná þeirri færni sem til þarf og í öðru lagi þá verða aldrei nógu mörg störf í boði í hátækni- og kunnáttugeiranum til að taka við öllum þeim milljónum sem koma úr störfum sem hverfa því að sjálfvirknin heldur innreið sína á öll svið atvinnulífsins.

Rifkin styður mál sitt með tölum og frásögnum úr bandarísku atvinnulífi og sýnir hvernig launamunur hefur aukist og raunveruleg laun hjá yfir 80% af verkafólki lækkuðu á áttunda áratugnum. Hann sýnir fram á hvernig vinnuafl hefur áður orðið verðlaust í bandarísku hagkerfi og rekur hvernig það tengist vanda blökkufólks í stórborgum og hvernig sú þróun hafi nú náð til ófaglærða hvítra verkamanna.

Hann varar við að þjálfun og endurhæfing atvinnulausra til starfa skili ekki árgangri því verið sé að þjálfa starfsmenn til starfa sem séu farin eða starfa sem séu á leiðinni að hverfa. Hann spáir því að þrátt fyrir að nýjar og fleiri vörur séu framleiddar þá gerist það í næstum mannlausum verksmiðjum og markaðsetning fari fram í sýndarfyrirtækjum sem þurfa fáa en afar vel þjálfaða starfsmenn. Rifkin telur að við verðum að endurskipuleggja hagkerfið miðað við þessar nýju aðstæður, nota hagnaðinn frá nýju framleiðsluháttum til að minnka klukkustundir í vinnuviku í 25-30 og taka upp nýjan, ríkisrekinn efnahagsgeira, “þriðja geirann”- geira sjálfboðavinnu og samfélagsþjónustu. Það eigi að greiða úr opinberum sjóðum fyrir sjálfboðaliðavinnu og þeir sem eru án atvinnu eigi að fá launaðan starfa við mikilvæg samfélagsverkefni svo sem að uppfræða börn og hugsa um aldraða eða sinna annars konar samfélagsþjónustu.

Hann lýsir því hvernig allt hagkerfið byggir á því að fólk selji vinnuafl sitt eins og hverja aðra markaðsvöru og þar sem það hafi nú verðfallið á þessum markaði, þá sé brýn nauðsyn á að viðurkenna annað en formlega vinnu til að nota þrótt og hæfileika komandi kynslóða. Ritkin lýsir framtíðarsamfélagi án verkafólks á vinnumarkaði og hvernig sama tæknibyltingin og olli atvinnuleysinu getur byggt upp nýja samfélagsskipan sem veitir grundvallarþjónustu og snýst um þýðingarmikla starfsemi.

Salvör Gissurardóttir tók saman í nóvember 1998

Heimildir:
Þessi pistill er byggður á bókinni “The End of Work” og greininni “Vanishing Jobs” eftir J. Rifkin.

The End of Work upplýsingar um bókina frá Amazon bókabúðinni
Jeremy Rifkin: Vanishing Jobs

Núna árið 2014,  fjórtán árum seinna  er youtube komið til sögunnar og mikið efni aðgengilegt á Netinu um hugmyndir Jeremy Rifkin. Hér er viðtal við hann sem tekið er árið 1995 um Endalok vinnunnar. “Jeremy Rifkin on Background Briefing, KPFK. Los Angeles, CA. April 02, 1995. Subject: the End of Work”