Komstu að Kornbrekkum?

Langalda á Rangárvöllum

Komstu að Kornbrekkum? Í dag 25. apríl ættum við að minnast Sandstormsins mikla, stormsins sem lagði í eyði margar jarðir á Rangárvöllum, féð dó og fólkið flosnaði upp, hagarnir eyddust og torfþökin ristust af húsunum. Sandstormurinn var einmitt verstur 25. apríl. En árið var 1882. Og stormurinn blés í margar vikur og hér er samtímaheimild frá prestinum í söfnuðinum sem varð einna verst úti. Séra Matthías Jochumsson var presturinn og þetta skrifar hann í Ísafold um hörmungarnar: Matthías segir frá  í grein í Ísafold 12. tbl. 8.06.1882, bls. 47:

“Allar ár lögðust strax undir sterka ísa, öll mannferð hætti, engir sáu aðra meðan þessi undur stóðu, því stormurinn hjelt öllu lifandi innibirgðu, en allt sem úti var og ekki hafði náð húsi, króknaði eða rotaðist til bana. Sandfokið sótti og inn í húsin, blandaði allan mat og drykkog jafnvel munnvatn manna. Víða gjörðist fólk hrætt og örvinglað, enda voru þá flestar bjargir bannaðar, þar sumstaðar var engin lífsnæring til fyrir fjenað og sumstaðar skorti allt: hey, mat og eldivið ; lagðist þá vesalt fólk fyrir, fól sig Guði og ljet svo fyrir berast uns kynjum þessum tók heldur að ljetta 2. og 3. maí. “

Matthías orti ljóðið “Komstu að Kornbrekkum”, eftirmæli eftir fyrrum ábúanda á Kornbrekkum en líka eftirmæli um blómlega sveit sem svartur sandurinn sveið. Kornbrekkur og þeir akrar sem þar voru urðu að engu og eyðileggingin hélt áfram og eyddi byggðinni á Rangárvöllum og í Landssveitinni, sandur sem fýkur um allt er eins og fljúgandi sandpappír, hann skefur burt þunnan gróður á svæði þar sem hann fer um. En hér er ljóð Matthíasar:

„Komstu að Kornbrekkum?”
Kom ég þar fyrrum:
Sól var yfir sveit,
sumar í garði.
Hlógu við hagar
og í hundraða flokkum
skipuðu sauðir sólbjarta grund.

Brosti við búrausn.
Bóndi kom til dyra.
Blíður í bragði bauð mér til stofu.
Gerhygli, greiði og göfuglyndi
fyllti fögnuði farmóðan gest.

„Komstu að Kornbrekkum?”
Kom ég þar aftur.
Sá ég sandmel
og svartar rústir. Úti bauð gestum auðn og kuldi, en súgur um sorg söng við inni. „Komstu þá að garði?” Kom ég og starði. Allt var í auðn og enginn heima. Sá ég austur á Sand. Sorgarskari dapur var á ferð með dökkri kistu. Hafði Helja héraðsmiðju farið ránshendi og rjóður gert. Sló húsbóndann og svo hvað af öðru, hús og haga, hjarðir og tún. Þá var mér sýnt, að sveitin drjúpti, og að hjör henni við hjarta stóð. Vildi og ei lifa eftir valmenni eitt kuldastrá á Kornbrekkum. „Komstu að Kornbrekkum?” Komstu þar í vetur? Sástu þar lauk þann, er lifir eftir? Sá er sífrjór sumar og vetur, — það er góðs manns orð, sem grær þó frjósi.

Langalda. Loðvíðir og birki.

Aðrar þjóðir eiga líka sögu um sandstorma sem kipptu lífsviðurværi frá bændum. Bandarísk saga geymir sagnir um Rykskálina  á Sléttunum miklu Bandaríski sanddagurinn er 14. apríl 1935 en íslenski sanddagurinn er 25. apríl 1882. Bandarísk alþýða geymir minningu um Sandstorminn mikla í söngvum en hér hefur enginn sungið tregaljóð um Sandstorminn á Rangárvöllum 1882, Ekki einu sinni sungið fallega ljóðið hans Matthíasar um kornbrekkurnar sem svarta auðnin tók. En við gætum staðfært bandaríska ljóðið, það er sami tregi í því. Hér er það sungið:

Núna á Sumardaginn fyrsta árið 2014 rifja ég upp ljóð Matthíasar Jochumssonar, hans sem var prestur í Odda á Rangárvöllum þegar veðrið kom.  Kornbrekkur voru höfuðból og það var áður búsældarlegt. Kornbrekkur voru norðaustur af Gunnarsholti nálægt þeim stað þar sem ég núna reyni að rækta upp sand á Rangárvöllum á landgræðslulóð á svæði sem heitir Langalda eftir risastóri sandöldu  sem teygir sem eftir landinu. Hinu megin við veginn sjáum við Reyðarvatnsrétt og hraunin öll sem Hekla sem gnæfir við í norðri hefur sent yfir byggðina. Norðan við landgræðslusvæðið sem einstaklingar rækta er annað landgræðsluverkefni, það er verkefnið Hekluskógar og fyrir sunnan er landgræðsluverkefni á Geitarsandi.