Eggið á brúnni

Það var myrkur og klukkan  var um eitt eftir miðnætti fyrir ári síðan. Við vorum á leið suður eftir Vestfjarðarvegi og ég var sofandi í framsætinu. Við vorum í Dölunum, á slóðum Eiríks rauða, landnámsmannsins sem fann Grænland og settist þar að og þar sem sonur hans Leifur heppni sem síðar fann Ameríku fæddist.  Bú Eiríks var í Haukadal en þar er Haukadalsvatn  og úr því rennur til sjávar út í Hvammsfjörð áin  Haukadalsá.

Ég hrökk upp frá draumi við dynk og   Magnús sagði “Ég held ég hafi keyrt yfir tófu”.  Hann sagði þar hefði gerst á brúnni  yfir Haukadalsá, þá sá hann og heyrði að  hvítt dýr varð fyrir bílnum.  Við fórum til baka til að athuga hvort sært dýr lægi á brúnni eða þarna nálægt  Þegar við komum að brúnni var ekkert dýr en það  var egg. Á miðri brúnni var óbrotið  stórt egg.

Eggið var hvítt en það var óhreint og  ég man að ég hugsaði að það væri eins og batikmynstur.  Á egginu voru ristur, svona eins konar rúnir. Tannaför sagði Magnús. Ég vildi ekki taka eggið  með í bæinn og við settum það  til hliðar á brúnni utan aksturslóðar  í þeirri veiku  von að ef tófan hefði sloppið ósködduð þá myndi hún gefa sótt það og fært yrðlingum sínum.

Hvaða líkur eru á að þú keyrir á tófu á brú í myrkri um nótt og svo þegar þú ferð að vitja um það sem þú heldur að sé slasað dýr þá sérðu egg á miðri brúnni.  Eina skýringin sem okkur dettur í hug er að tófan hafi verið með álftaregg og einmitt verið að fara yfir brúna  með eggið í kjaftinum  þegar okkur bar að og hafi því farið svo hægt að hún gat ekki komið sér í burtu frá bílnum í tíma, ef til vill tekið tíma í að koma egginu varlega frá sér áður en hún ætlaði að víkja sér undan bílnum. Hún hafði átt að sjá langt að bíl koma á háu ljósunum og hafa mikinn tíma til að forða sér.

Daginn eftir fór ég á Netið til að athuga hvort eitthvað hefði gerst sem útskýrði eggið á brúnni. Það er náttúrulega furðulegt að fara á Netið til þess en mér datt bara ekkert annað í hug. Það var tvennt sem hafði gerst. Ísbjörn hafði komið á land í grennd við Hælavík á Hornströndum og var veginn í Rekavík og svo var Bin Laden veginn nálægt Islamabad. Þetta voru hvort tveggja aftökur, aftökur sagðar til að vernda borgara og umheiminn fyrir hættulegum og grimmum mönnum og dýrum.